Erlent

Einn í haldi í tengslum við skot­á­rás í Brown-háskóla

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Grunaður árásarmaður var handtekinn á hóteli í Providence í nótt.
Grunaður árásarmaður var handtekinn á hóteli í Providence í nótt. AP

Einn er í haldi lögreglu í tengslum við rannsókn á skotárás í Brown-háskóla á Rhode eyju í Bandaríkjunum í gær. Tveir eru látnir og níu særðir eftir árásina. 

Heimildarmenn CNN fréttastofunnar urðu varir við mikinn viðbúnað lögreglu á hóteli skammt frá háskólanum í Providence í nótt. Lögreglumenn á vettvangi sögðu aðgerðina tengda árásinni. 

Ekki liggur fyrir hvort hinn handtekni hafi haft skotvopn í fórum sínum. 

Samkvæmt umfjöllun BBC hófst skothríðin um fjögur síðdegis að staðartíma í gær, í byggingu þar sem jólapróf stóðu yfir. 

Árásarmaðurinn er sagður hafa skotið yfir fjörutíu sinnum úr skammbyssu inni í skólastofu. Á myndefni úr öryggismyndavélum má sjá viðkomandi ganga rólega frá vettvangi eftir að hafa framið verknaðinn.

Háskólinn sem um ræðir er einn elsti og virtasti háskóli Bandaríkjanna, og er einn hinna átta svonefndu Ivy-league skóla.

AP hefur eftir lögreglunni í Providence að hinn grunaði sé á fertugsaldri. Lögregla veitti ekki upplýsingar um hvort viðkomandi væri nemandi við skólann.


Tengdar fréttir

Tveir látnir eftir skotárás í háskóla

Tveir eru látnir og og níu slasaðir eftir skotárás í Brown háskóla í Rhode Island í Bandaríkjunum í gær. Lögregla leitar árásarmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×