Viðskipti innlent

Ís­land gerir sam­komu­lag um makrílveiðar í fyrsta skipti

Kjartan Kjartansson skrifar
Ísland hefur ekki verið aðili að samkomulagi um makrílveiðar frá því að þær hófust af krafti í lögsögunni fyrir átján árum.
Ísland hefur ekki verið aðili að samkomulagi um makrílveiðar frá því að þær hófust af krafti í lögsögunni fyrir átján árum. Utanríkisráðuneytið

Fulltrúar Íslands, Noregs, Bretlands og Færeyja skrifuðu undir samkomulag um skiptingu og stjórn makrílsstofnsins í morgun. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk stjórnvöld gangast undir samkomulag um makríl frá því að veiðar á honum hófust í lögsögunni árið 2007.

Ísland fær 12,5 prósent af heildarkvótanum samkvæmt samkomulaginu, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Íslensk makrílskip geta veitt sextíu prósent af kvóta sínum í norskri lögsögu og þrjátíu prósent í færeyskri.

Þegar greitt hefur verið fyrir aðgang til veiða í norskri og færeyskri lögsögu er hlutdeild Íslands sögð nema 10,5 prósentum.

Samkomulagið er sagt sögulegt því með því viðurkenni önnur strandríki varðandi makríl hlutdeild Íslands en það neituðu þau lengi vel að gera. Því er lýst sem útvíkkun á samkomulagi sem Noregur, Bretland og Færeyjar gerðu um skiptingu makríls og aðgang til veiða í lögsögum ríkjanna í fyrra.

Ríkin fjögur eiga enn eftir að ná samkomulagi við Grænland og Evópusamband sem eiga einnig tilkall til makrílsins. Vinna á að heildarsamkomulagi allra strandríkjanna og eru vonir sagðar standa til að það náist á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×