Erlent

Fjöl­skyldur lýsa martraðarkenndri bið

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Arthur Brodard, Charlotte Niddam og Achille Barosi, fimmtán og sextán ára, frá því á nýársnótt. Óttast er að þau hafi farist í eldsvoðanum á Crans-Montana skíðasvæðinu á gamlárskvöld.
Ekkert hefur spurst til Arthur Brodard, Charlotte Niddam og Achille Barosi, fimmtán og sextán ára, frá því á nýársnótt. Óttast er að þau hafi farist í eldsvoðanum á Crans-Montana skíðasvæðinu á gamlárskvöld.

Fjölskyldur ungmenna sem grunað er að hafi látið lífið í eldsvoða í skíðabæ í Sviss á gamlárskvöld bíða enn fregna frá yfirvöldum um nöfn hinna fjörutíu sem létust. Stjórnvöld í Sviss segja daga ef ekki vikur þar til upplýsingar um öll fórnarlömb liggja fyrir. 

Í umfjöllun BBC segir að borin hafi verið kennsl á 113 af þeim 119 sem lagðir voru inn á sjúkrahús eftir eldsvoðann. Enn sé unnið að því að bera kennsl á þá sex sem eftir eru. 

Talið er að eldurinn hafi kviknað í lofti staðarins út frá gosblysi sem starfsmenn gengu með til þeirra sem höfðu keypt flöskur af áfengi.

Svissnesk stjórnvöld lýstu í gær yfir fimm daga þjóðarsorg vegna atburðarins. 

Fór að sækja jakkann sinn og kom ekki aftur

Breska ríkisútvarpið ræddi við fjölskyldur barna sem vitað er að fóru á umræddan skemmtistað á gamlárskvöld en ekkert hefur heyrst frá síðan þá. 

„Ég verð að finna son minn. Það eru liðnar þrjátíu klukkustundir síðan hann hvarf,“ segir Laetitia Brodard, móðir hins sextán ára gamla Arthurs Brodard. 

Hún segir föður piltsins hafa ferðast milli sjúkrahúsa í Bern og Lausanne í von um að finna son sinn. Í samtali við svissneska miðilinn Le Temps segir Laetitia síðustu daga líkjast martröð. 

Miðillinn fjallar sömuleiðis um hina fimmtán ára gömlu Charlotte Niddam, breskan ríkisborgara sem starfar við barnapössun á skíðasvæðinu meðan hún er í fríi frá skóla. Óttast er að hún hafi farist í eldsvoðanum.

Í tilkynningu frá menntaskólanum sem hún sækir er fólk beðið um að biðja fyrir Charlotte og fjölskyldu hennar. 

Aðstandendur sextán ára gamla Ítalans Achille Osvaldo Giovanni Barosi bíða sömuleiðis milli vonar og ótta eftir fréttum af piltinum. Hann mætti á skemmtistaðinn á öðrum tímanum á nýársnótt til að sækja jakka og síma sem hann hafði skilið eftir þar. Fjölskylda hans hefur ekki heyrt frá honum síðar.

„Við vitum ekki hvort hann sé enn á lífi,“ sagði Francesca frænka hans í samtali við BBC.


Tengdar fréttir

Fyrsta fórnar­lambið nafn­greint

Golfsamband Ítalíu hefur staðfest að Emanuele Galeppini, sautján ára kylfingur sem hefur verið búsettur í Dúbaí, hafi farist í eldsvoðanum á skemmtistað í svissneska skíðabænum Crans-Montana á nýársnótt. Galeppini er fyrsta fórnarlambið sem hefur verið nafngreint opinberlega en um fjörutíu manns fórust í brunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×