Erlent

Trump dregur enn frekar úr þátt­töku Banda­ríkjanna á alþjóðasviðinu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Stjórnvöld í Bandaríkjunum undir forystu Donalds Trumps hafa nú ákveðið að segja sig frá enn fleiri alþjóðastofnunum og sáttmálum.

Í gærkvöldi undirritaði forsetinn tilskipanir þess efnis að Bandaríkin hætti þátttöku í alls sextíu og sex samtökum, stofnunum og nefndum á alþjóðasviðinu. Í mörgum tilfellum er um að ræða ráð og nefndir sem tengjast Sameinuðu þjóðunum og þar sem fjallað er um loftslagsbreytingar, flótta- og farandverkamenn og verkalýðsmál. Til að mynda hverfa Bandaríkin nú frá rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.

Einnig hætta stjórnvöld þátttöku í ýmsum batteríum sem Trump og félagar hafa kallað „woke“ eða þar sem stuðlað er að aukinni fjölbreytni og réttindum minnihlutahópa.

Svo eru nokkur samtök og ráð sem ekki tengjast Sameinuðu þjóðunum, til að mynda PAC, eða Partnership for Atlantic Cooperation sem Bandaríkjamenn sjálfir komu á laggirnar árið 2023 og var ætlað að auka samvinnu ríkja við Atlantshafið í heild sinni en Íslendingar eru aðilar að samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×