Erlent

Netsambandslaust meðan mót­mælt er í Íran

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mótmæli gegn klerkastjórninni hafa staðið yfir í landinu í tólf daga.
Mótmæli gegn klerkastjórninni hafa staðið yfir í landinu í tólf daga. AP

Fjölmenn mótmæli gegn írönskum stjórnvöldum héldu áfram víða um Íran í kvöld. Netsamband hefur rofnað um allt landið á sama tíma og aukin harka hefur færst í mótmælin og átök brotist út milli mótmælenda og öryggissveita klerkastjórnarinnar..

Í samfélagsmiðlafærslu frá samtökunum Netblocks, sem hafa eftirlit með netnotkun í heiminum, segir að netsambandsleysið komi í kjölfar „fjölda hertra stafrænna ritskoðunaraðgerða“ sem beinist að mótmælendum og komi í veg fyrir að almenningur geti átt samskipti á ögurstundu.

Washington Post hefur eftir mannréttindasamtökum að allt að 36 manns séu taldir af eftir óeirðirnar og að börn séu meðal látinna.

Rætur mótmælanna má að langmestu rekja til mjög slæms efnahagslegs ástands í Íran. Gjaldmiðill Íran hefur hríðfallið í virði undanfarið ár, verðlag hefur hækkað mjög þar sem verðbólga mælist fjörutíu prósent og aðstæður almennings hafa versnað til muna.

Í myndböndum sem fréttastofa BBC hefur sannreynt að séu síðan í kvöld sjást mörg þúsund mótmælendur ganga um götur Teheran og fleiri íranskra borga.

Þrátt fyrir að augljóslega sé um fjöldamótmæli að ræða hefur íranski ríkismiðillinn gert lítið úr mótmælunum og í einhverjum tilfellum hafnað því að þau eigi sér stað yfir höfuð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði í kvöld að klerkastjórnin fengi að „finna verulega fyrir því“ ef hún hætti ekki að drepa friðsama mótmælendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×