Erlent

Banda­ríkin gerðu loft­á­rásir gegn ISIS í Sýr­landi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Loftárásir voru gerðar á ríflega 35 skotmörk.
Loftárásir voru gerðar á ríflega 35 skotmörk. Bandaríski herinn

Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra gerðu umfangsmiklar loftárásir sem beindust gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Upplýsingar um það hvar loftárásirnar voru gerðar og mannfall liggja ekki fyrir.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að árásirnar hafi verið liður í verkefninu „Operation Hawkeye Strike,“ og hafi verið svar við árásum íslamska ríkisins gegn bandarískum hermönnum í Sýrlandi 13. desember síðastliðinn.

Í færslu bandarískra heryfirvalda á samfélagsmiðlum segir að árásirnar hafi verið liður í stríðunu gegn hryðjuverkum og markmið þeirra hafi verið að vernda bandaríska hagsmuni á svæðinu.

„Skilaboðin eru skýr, ef þú ræðst á okkar hermenn, munum við finna ykkur og drepa ykkur hvar sem er í heiminum, það skiptir engu hvað þið leggið mikið á ykkur til að koma ykkur undan,“ segir í færslunni.

Fram kemur hjá BBC að Bandaríkin og samverkamenn þeirra hafi skotið um 90 eldflaugum á fleiri en 35 skotmörk, og rúmlega 20 flugvélar hafi verið notaðar við verkið.

Ríkisstjórn Donalds Trump tilkynnti um verkefnið „Operation Hawkeye Strike“ þegar tveir bandarískir hermenn og einn óbreyttur bandarískur ríkisborgari voru drepnir í árásum vígamanna íslamska ríkisins í Sýrlandi 13. desember.

Bandaríkjamenn hafa ráðist nokkrum sinnum í umfangsmiklar árásir gegn ISIS í Sýrlandi síðan þá.


Tengdar fréttir

Gerðu umfangsmiklar árásir gegn ISIS í Sýrlandi

Bandaríkjamenn gerðu í gær árásir á um sjötíu skotmörk sem talin eru tengjast starfsemi Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Markmiðið var að hefna fyrir dauða tveggja bandarískra hermanna og túlks í árás í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×