Innlent

Bólusetning bjargar okkur

Þýskum ferðamönnum á leið til Bretlands hefur verið ráðlagt að láta bólusetja sig gegn hettusótt, vegna faraldurs sem brotist hefur út meðal háskólanema þar. Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins, segir ekki ástæðu til aðgerða hér vegna faraldursins í Bretlandi. "Hér var hettusótt dálítið algeng áður fyrr, en síðan farið var að bólusetja um árið 1988 hefur verið mjög góð þekjun á bólusetningu. Bretar eru hins vegar að súpa seyðið af neikvæðri umfjöllun um þetta MNR bóluefni. Notkunin datt niður og þar með þekjunin og þar með eru þessir sjúkdómar farnir að sjást þar," sagði hann og bætti við að í þessu endurspeglaðist hversu mikilvægt væri að halda úti góðri bólusetningu á landsvísu. "Um leið og slakað er á fara þessir sjúkdómar að skjóta upp kollinum aftur. Hettusótt getur verið nokkuð alvarlegur sjúkdómur, sérstaklega hjá kynþroska karlmönnum. Hún getur farið í eistun og gert þá ófrjóa. Þá getur hún valdið alvarlegum sjúkdómi í munnvatnskirtli og vægri heilahimnu- og heilabólgu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×