Erlent

Kosningasvindl í Bandaríkjunum?

Víðtækt samsæri var um að breyta kosninganiðurstöðum í Ohio-ríki í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og var öllum ráðum beitt til að tryggja sigur Bush forseta þar. Þessu heldur hópur sem Jesse Jackson fer fyrir fram og hefur krafist rannsóknar.  Það var ekki fyrr en í gær sem forseti Bandaríkjanna var formlega kjörinn þegar þeir kjörmenn sem kjörnir voru í kosningunum í nóvember komu saman. Þó að George Bush hafi verið kjörinn þýðir það ekki að deilum um kosningarnar sé lokið. Nokkrir demókratar, með Jesse Jackson og Cliff Arnebeck lögfræðing í broddi fylkingar, hafa kært niðurstöður atkvæðagreiðslunnar í Ohio-ríki og segja þar býsna margt hafa verið með undarlegum hætti. Þeir saka menn hliðholla Bush um að hafa með hátæknilegum hætti rænt atkvæðum. Það vakti til að mynda athygli þeirra að Bush fékk fleiri atkvæði í sýslum þar sem augnhimnuskönnun var notuð til að bera kennsl á kjósendur, og gera því skóna að hugsanlega hafi einhvers konar hugbúnaður ruglað í atkvæðum þess fólks. Í umdæmum, þar sem demókratar hafi verið fleiri, hafi verið skortur á kosningavélum en nóg af þeim þar sem repúblíkanar voru. Jackson og félagar fullyrða að villt hafi verið um fyrir kjósendum með skipulegum hætti og þeim sagt að fara á kolranga staði til að greiða atkvæði, ógildir seðlar hafi verið taldir á köflum og á heildina hafi hundrað og þrjátíu þúsund atkvæðum, sem féllu Kerry og Edwards í skaut, einhvern veginn verið snúið þannig við að Bush og Cheney fengu þau. Það er nú dómara að taka afstöðu til þessara fullyrðinga en reynist þær réttar er ljóst að úrslit forsetakosninganna gætu verið allt önnur en talið var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×