Erlent

Tóku fjölda hermanna af lífi

Samúel Karl Ólason skrifar
Íslamistar sem hertekið hafa stór svæði í Írak, birtu myndir á internetinu í dag sem virðast sýna vígamenn Isis taka af lífi fjölda hermanna í Tikrit. Hermennirnir eru ekki klæddir í herbúninga og voru handsamaðir þegar herstöð féll í hendur Isis.

Samkvæmt AP fréttaveitunni sýna myndirnar hvernig hermennirnir eru fluttir með pallbílum að grunnum skurði. Þar eru þeir látnir leggjast í skurðinn og eru skotnir.

Isis er öfgahópur súnníta og hafa heitið því að ná til Bagdad og til annarra borga í suðurhluta Írak. Þar sem fjölmargar heilagar byggingar sjíta má finna. Æðsti trúarleiðtogi sjíta hefur kallað eftir því að íbúar Írak taki upp vopn gegn öfgahópnum og hafa hundruð manna svarað kallinu.

BBC segir talsmann hersins í Írak hafa staðfest að myndirnar væru ekki falsaðar. Ef satt reynist er um að ræða mesta ódæði landsins frá því Bandaríkin leiddu innrás í Írak árið 2003.

Hópurinn birti einnig myndband af hundruðum fanga sem sagðir eru hafa gefist upp þegar herstöðin féll. Heimildir BBC segja að allt að þúsund hermenn hafi verið teknir af lífi.

Heimildir BBC gefa í skyn að allt að þúsund hermenn hafi verið teknir af lífi.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×