Farþegaþota í flugi MH17 sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur var skotin niður á fimmtudagsmorgun yfir austurhluta Úkraínu með þeim afleiðingum að allir farþegar um borð og áhöfn létust, alls 298 manns.
Talið er að málið geti valdið alvarlegri alþjóðlegri krísu ef það tekst að sanna að MH17 hafi verið skotin niður af aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu sem studdir eru af Rússum, að því er fram kemur í bráðabirgðaskýrslu bandarískra yfirvalda og greint er frá í Washington Post. Á vef BBC er greint frá því að úkraínsk stjórnvöld hafi sakað aðskilnaðarsinna um að fjarlægja mikilvæg sönnunargögn á vettvangi.
Kenna Rússum um
Á vefmiðlinum Vox er vitnað í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar en bráðabirgðaniðurstöður hennar benda til þess rússneskir aðskilnaðarsinnar hafi skotið vélina niður. Í fréttaskýringu í Washington Post er greint frá því að bandarísk stjórnvöld séu leggja grunn að því að kenna Rússum um árásina en Barack Obama sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á föstudag að það væri engin tilviljun að Rússar væru að afhenda aðskilnaðarsinnum í Úkraínu vopn. Rússar hafa hafnað ábyrgð.
"We didn't do it," er haft eftir Vitaly Churkin sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum í Financial Times. Vladimír Pútín hefur kennt úkraínskum stjórnvöldum um að hafa skotið MH17 niður.
Nú þegar hafa nokkrar bráðabirgðaskýrslur verið unnar um málið og sönnunargögn sem benda á Rússa hrannast upp.

Upptaka af hleruðu símtali birt á netinu
Hlerað símtal milli leiðtoga aðskilnaðarsinna í Úkraínu og rússnesks embættismanns gefur til kynna að aðskilnaðarsinnar beri ábyrgð á árásinni. Það hefur ekki verið staðfest, að því er fram kemur í VOX en upptakan á símtalinu hefur verið birt á netinu. Aðskilnaðarsinnar í Úkraínu hafa neitað sök.
Ellen Barry blaðamaður New York Times segir á Twitter að leiðtogi þeirra hafi vísað ásökunum til föðurhúsanna þar sem aðskilnaðarsinnar búi ekki yfir nægilega fullkominni tækni. Í skýrslu frá 29. júní var hins vegar greint frá því að aðskilnaðarsinnar fullyrtu að þeir hefðu Buk-eldflaugakerfi.