David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fór fram á að NATO endurskoðaði samband sitt við Rússland í kjölfar „ólöglegra aðgerða“ Rússa í Úkraínu.
Þetta kom fram í bréfi Camerons sem hann sendi leiðtogum NATO-ríkjanna nú í morgun. Í bréfinu segir hann Rússa líta á NATO-ríkin sem fjandmenn sína og að sambandið verði að vera betur í stakk búið til að mæta hvers kyns ógnum.
„Við verðum að horfa í augu við það að samvinna síðustu ára er ekki lengur uppi á borðinu eftir ólöglegar aðgerðir Rússa í umdæmi NATO og að við verðum að endurskoða reglurnar sem lúta að samskiptum okkar við Rússland,“ segir forsætisráðherra í bréfinu.
Ummæli Camerons koma í kjölfar skýrslu sem unnin var af nefnd á vegum breska þingsins. Þar kom meðal annars fram að framferði Rússa í austurhluta Úkraínu vekti alvarlegar spurningar um getu NATO til að bregðast við árásum á hendur aðildarríkja sambandsins.
Atburðarás síðustu mánaða í Úkraínu „hafi opinberað illviðráðanlega vankanta á viðbragðsgetu NATO, sem erfitt verður að laga,“ sagði nefndin.
Cameron sagði einnig að heimurinn væri óútreiknanlegri nú en áður eftir að „Rússland reif reglubókina með ólöglegri innlimun Krímskagans.“
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)