Erlent

Bandaríkjamenn senda 1.500 hermenn til Íraks

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Vísir/AFP
Bandaríkjaher mun senda 1.500 hermenn til Íraks til aðstoðar írökskum öryggissveitum í baráttu þeirra við liðsmenn ISIS. Talsmaður Bandaríkjaforseta staðfesti þetta fyrr í kvöld.

Hermennirnir sem um ræðir eru allir ætlaðir til að þjálfa og aðstoða írakska hermenn og munu ekki taka sjálfir þátt í hernaðaraðgerðum.

Talsmaður Barack Obama Bandaríkjaforseta segir forsetann hafa gefið fyrirskipun um þetta eftir að beiðni barst frá írökskum stjórnvöldum.

Í frétt BBC segir að þessir 1.500 hermenn munu nú bætast í hóp þeirra hundruða bandarískra hermanna sem fyrir eru í Írak.

Vígasveitir ISIS ráða nú yfir stórum landsvæðum bæði í norðurhluta Íraks og í Sýrlandi, en bandalag ríkja undir stjórn Bandaríkjanna hefur framkvæmt fjölda loftárása gegn ISIS síðustu mánuði.

Í tilkynningu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu segir að hermennirnir muni aðstoða níu stórfylki Írakshers og þrjú stórfylki herliðs Kúrda. Bandaríkjaher mun einnig koma upp tveir ráðgjafarmiðstöðvum fyrir utan Bagdad og í Irbil.

Obama mun nú biðja Bandaríkjaþing um 5,6 milljarða dala viðbótarframlag vegna aðgerða Bandaríkjahers í Írak og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×