Erlent

Ráðist á vinsælt hótel í Líbíu

Atli Ísleifsson skrifar
Hótelið í Trípolí.
Hótelið í Trípolí. Vísir/Hotel Corinthia
Vopnaðir menn með möguleg tengsl við ISIS hafa drepið þrjá öryggisverði og eru með gesti hótelsins í gíslingu eftir að þeir réðust á hótel sem vinsælt er meðal erlendra ferðamanna í líbísku höfuðborginni Trípolí í morgun.

Essam Al-Naas, talsmaður yfirvalda, segir að umsátursástand sé við Corinthia hótelið í miðborg Trípolí.

Hassan al-Abey, starfsmaður hótelsins, segir að fimm grímuklæddir menn, klæddir skotheldum vestum, hafi ráðist á hótelið og skotið í allar áttir. Þá hafi mennirnir sprengt bíl í loft upp á bílastæði hótelsins.

Í frétt Wall Street Journal kemur fram að Al-Abey segi að Evrópumenn hafi verið gestir á hótelinu.

Ástandið í Líbíu hefur verið mjög óstöðugt frá því að Moammar Gadhafi, einræðisherra landsins, var hrakinn frá völdum og myrtur. Tvær ríkisstjórnir og þing eru nú starfandi í landinu, studdar af tveimur ólíkum uppreisnarhópum.

Uppfært 13:10.

Bæði AP og AFP greina frá því að fimm erlendir ríkisborgarar hafi látist í árásinni, til viðbótar við þá öryggisverði sem létust.

Uppfært 15:48.

Gíslatökunni á hótelinu virðist nú vera lokið. Þetta segir á vef Al Jazeera. Árásarmennirnir sprengdu sjálfa sig í loft upp inni á hótelinu. Bjarga tókst þeim sem var haldið í gíslingu, en þeirra á meðal voru átta Bandaríkjamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×