Erlent

Vilja eyða ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
„Fyrir ykkur, óvini íslam.“
„Fyrir ykkur, óvini íslam.“ Vísir/EPA
Orrustuþotur frá Jórdaníu gera nú loftárásir gegn Íslamska ríkinu í Írak og í Sýrlandi. Áður hafa þeir eingöngu ráðist gegn ISIS í Sýrlandi, en hafa lýst því yfir að þeir muni ekki hætta fyrr en samtökunum hefur verið útrýmt.

„Við sögðumst ætla að fara með þetta alla leið. Við munum berjast gegn þeim hvar sem þeir eru og nú erum við að gera það,“ sagði Nasser Judeh, utanríkisráðherra Jórdaníu við Fox News í dag.

Samkvæmt AP fréttaveitunni tóku tugir orrustuþota þátt í aðgerðunum í dag og voru meðal annars gerðar loftárásir í borginni Raqqa, sem er óopinber höfuðborg Íslamska ríkisins.

Á myndum sem birtust í ríkissjónvarpi Jórdaníu sjást hermenn skrifa meðal annars: „Fyrir ykkur, óvini íslam“ á sprengjur. Lesin var upp tilkynning frá hernum sem hófst á orðunum: „Þetta er byrjunin og þið munuð kynnast Jórdönum.“ Þar var tekið fram að árásirnar myndu halda áfram þar til búið væri að útrýma ISIS.

Þessar aðgerðir Jórdaníu eru viðbrögð við því að ISIS-liðar brenndu jórdanskan flugmann lifandi, sem þeir handsömuðu í desember. Þá birtu þeir myndband af morðinu á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir

Hryðjuverkamenn teknir af lífi í Jórdaníu

Yfirvöld í Jórdaníu tóku í nótt tvo dæmda hryðjuverkamenn af lífi eftir að ISIS liðar í Sýrlandi og Írak birtu myndir sem sýna aftöku jórdansks orrustuflugmanns sem þeir tóku í gíslingu í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×