Erlent

Mikil leit stendur yfir að breskum stúlkum í Tyrklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Amira Abase, Kadiza Sultana og Shamina Begum flugu til Tyrklands og ætla til Sýrlands.
Amira Abase, Kadiza Sultana og Shamina Begum flugu til Tyrklands og ætla til Sýrlands. Vísir/EPA/AFP
Þrjár stúlkur, tvær fimmtán ára og ein sextán, sem voru saman í skóla í London hafa flogið til Tyrklands með það markmið að komast til Sýrlands og ganga til liðs við Íslamska ríkið. Breskir lögreglumenn hafa farið til Tyrklands á eftir þeim og er þeirra leitað þar, en mögulega eru þær þegar komnar til Sýrlands.

Þær flugu til Tyrklands þann 17. febrúar.

Yfirvöld í Bretlandi hafa orðið fyrir gagnrýni vegna málsins. Ein stúlknanna hafði samband við konu á Twitter, áður en þær fóru til Tyrklands. Sú kona fór til Sýrlands árið 2013 til að giftast vígamanni ISIS og hefur hún og Twittersíða hennar verið undir eftirliti síðan.

Á vef BBC segir að fjölskyldur stúlknanna hafi beðið þær um að koma heim sem fyrst. Systir einnar þeirra vonar að þær hafi farið til Sýrlands til að ná í vinkonu sína úr skólanum, sem fór þangað í desember.

Skólastjóri Bethnal Green skólans, þar sem stúlkurnar voru nemendur, segir að lögreglan hafi rætt við þær í desember þegar vinkona þeirra fór til Sýrlands. Þá vaknaði ekki grunur um að þær hefðu einnig í huga að fara einnig og ganga til liðs við Íslamska ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×