Erfingjar Sigurðar Hjaltested, eigendur Vatnsendajarðarinnar, standa nú í málaferlum við Kópavogsbæ. Krafan sem þeir setja fram er 75 milljarðar, 47 milljarðar til vara. Kópavogsbær hefur beðið um fjögurra vikna frest. Karl Hjaltested, einn eigenda jarðarinnar, segir varakröfuna byggða á þeim samningum sem gerðir voru á sínum tíma við Þorstein Hjaltested, ábúanda jarðarinnar, og eru framreiknaðir.
47 milljarðar raunhæf krafa
„Krafa okkar er 75 milljarðar, en það er í raun allt eignarnámið. Okkur kemur í raun ekki við hvort Kópavogsbær var að borga einhverjum eitthvað. Ítrekað voru bæjaryfirvöld vöruð við því að Þorsteinn væri ekki eigandi jarðarinnar. Í öllum pappírum er talað um landeiganda, ekki ábúanda,“ segir Karl í samtali við Vísi.
Málið er flókið og inn í þetta blandast málaferli sem Þorsteinn fór í við Kópavog; hann vildi fá greiddan það sem út af stóð og var krafa hans 12,6 milljarðar. Eftir að dómstólar höfðu farið með yddarann á þá tölu stóð eftir 8 milljarða krafa. Kópavogur hafði þá greitt honum rúma 2,2 milljarða, auk þess sem hann átti að fá tilbúnar 300 lóðir, 11 prósent af öllu fjölbýli og krafa eigenda byggir á þessu, framreiknun þess samnings sem eru 47 milljarðar.

Tíu erfingjar
Karl segist ekki vita hvað verður, hvort Kópavogsbær reynir að flækja málin þá varðandi erfðaskrá og ábúendarétt, eða hvort bærinn vilji semja eða láta á þetta reyna fyrir dómsstólum. Sjálfur velkist hann ekki í vafa um niðurstöðuna en hæstiréttur kvað nýverið upp dóm þar sem segir að eigenda sé rétturinn.
Karl segist ekki vita hvenær endanlegrar niðurstöðu sé að vænta. „Ég veit það ekki. Tvö til þrjú ár í viðbót? Það skiptir varla öllu máli. Á næsta ári fögnum við fimmtíu ára afmæli þessara málaferla. Árið 1966 dó pabbi og þá hefjast málaferlin. Þetta hefur tekið langan tíma,“ segir Karl.
Þau systkinin eru fimm, og svo er það hlutur móður hans, sem fallin er frá; sem snýr þá að börnum hennar hinum sem eru fimm. Þetta eru þá sex hlutar í raun, sem um ræðir. Ljóst má vera að verulegir fjármunir eru í húfi fyrir eigendurna.

Kópavogur í klípu
Inní þetta mál tengjast svo vatnsréttindi sem Þorsteinn framseldi á sínum tíma til Gunnars I. Birgissonar þá bæjarstjóra í Kópavogi. Að sögn Karls eru málaferli í vændum sem tengjast þeim, þannig að Kópavogur er í verulegum vandræðum vegna þessara mála. Karl segir Þorstein hafa stofnað sérstakt félag, Vatn ehf, ásamt lögmanni sínum, sem svo seldu leigu á vatnsréttindum til 50 ára. Sá samningur er sérkennilegur, greitt var fyrir hann 30 milljónir en ýmis ákvæði eru skrítin í þeim samningi, svo sem þau að þó Kópavogur fari nú með réttindin má bærinn ekki áframselja vatn, eins og til að mynda ef skip leggst við höfn í Kópavogi. Þá má ekki selja vatn til að fylla á tanka.