Innlent

Einar K.: Halldór var afkastamaður og ósérhlífinn, glöggskyggn og sanngjarn

Atli Ísleifsson skrifar
Forseti þingsins rakti stjórnmálaferil Halldórs og sagði hann hafa aflað sér mikils trausts á fyrstu þingmannsárum sínum.
Forseti þingsins rakti stjórnmálaferil Halldórs og sagði hann hafa aflað sér mikils trausts á fyrstu þingmannsárum sínum. Vísir/Stefán/Norden
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, minntist Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, við upphaf þingfundar í dag. Halldór lést í gær.

Forseti þingsins rakti stjórnmálaferil Halldórs og sagði hann hafa aflað sér mikils trausts á fyrstu þingmannsárum sínum, ekki aðeins meðal flokksmanna sinna, heldur langt út fyrir raðir þeirra. „Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og atvinnumálum og þótti stefnufastur stjórnmálamaður og var stundum líkt við klett í hafi.“

Einar sagði að í dagfari sínu hafi Halldór verið hægur og yfirvegaður og farið vel með sitt mikla skap og kappsemi. „Hann var hlýr í viðmóti, drenglundaður og vinur vina sinna. Þótt alvörugefinn væri var jafnan stutt í glensið og hann hafði gaman af því að gleðjast með mönnum þegar honum þótti það við eiga.“

Einar hélt áfram og sagði að það hafi einkennt störf Halldórs mest á farsælum ferli hans í stjórnmálum að hann hafi verið afkastamaður og ósérhlífinn, en jafnframt óvenjulega glöggskyggn og sanngjarn. „Sem foringi var hann óvílinn og tók af skarið þótt mál væru umdeild. Þeir sem þekktu og unnu með Halldóri Ásgrímssyni hér á Alþingi og í ríkisstjórn sakna nú góðs vinar og öflugs samstarfsmanns sem alltaf var hægt að treysta.

Við hið óvænta og ótímabæra fráfall Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á þjóðin að baki að sjá einum helsta stjórnmálaforingja sínum um áratugaskeið.“

Að lokum bað Einar K. þingheim að minnast Halldórs Ásgrímssonar með því að rísa úr sætum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×