Erlent

Rússar íhuga loftárásir í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin eftir allsherjarþingið.er
Vladimir Putin eftir allsherjarþingið.er Vísir/AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, funduðu í fyrsta sinn í eitt ár eftir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í gær. Þar ræddu forsetarnir ástandið í Sýrlandi og hvaða skref væri hægt að taka til að stöðva átökin þar. Putin sagði Rússa íhuga að gera loftárásir í Sýrlandi.

Putin vill að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, verði áfram við völd en Obama segir það ómögulegt eftir að uppreisnarhópar hafi barist til að koma honum frá völdum í fjögur ár. Ekki væri mögulegt að snúa aftur eftir allar þessar blóðsúthellingar.

Meira en 250 þúsund manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni og gífurlegur fjöldi Sýrlendinga hefur þurft að flýja heimili sín. Samkvæmt AP fréttaveitunni eru litlar líkur á að Obama og Putin muni vinna að sameiginlegri lausn í Sýrlandi, en eftir einkafund þeirra gáfu þeir út óskýrar tilkynningar um nauðsyn þess að finna pólitíska lausn á deilunni í Sýrlandi.

Francois Hollande, forseti Frakklands, studdi Obama og sagði engan geta ímyndað sér pólitíska lausn þar sem Assad væri enn við völd. Hann kallaði eftir því að önnur ríki í Mið-Austurlöndum, með áhrif í Sýrlandi, beittu sér fyrir stjórnarskiptum þar. Tyrkir eru einnig mótfallnir því að Assad verði áfram við völd.

Yfirvöld Íran tóku þó í sama streng og Putin og sögðu Assad þurfa að halda völdum til að berjast gegn öfgahópum eins og Íslamska ríkinu. Rússar hafa aukið við herafla sinn í Sýrlandi undanfarið, þar sem rússneskir hermenn hafa þjálfað sýrlenska í notkun nýrra vopna sem Rússar hafa flutt til landsins. Þar að auki sagði Putin að Rússar íhuguðu nú að gera loftárásir gegn ISIS í Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Vilja bandalag gegn Íslamska ríkinu

Vladimír Pútín segir einu lausnina í Sýrlandi felast í því að styrkja Assad Sýrlandsforseta, en Barack Obama stendur fast á því að samvinna við Assad komi ekki til greina. Hins vegar er Obama reiðubúinn að vinna með Rússum og Írönum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×