Erlent

Fara fram á að Rússar einbeiti sér að ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd tekin af loftárás Rússa í Sýrlandi.
Mynd tekin af loftárás Rússa í Sýrlandi.
Þjóðir sem myndað hafa bandalag gegn Íslamska ríkinu fara fram á að Rússar hætti að gera loftárásir gegn uppreisnarhópum í Sýrlandi. Þess í stað einbeiti Rússar sér að því að berjast gegn ISIS. Í sameiginlegri yfirlýsingu Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Katar, Sádi Arabíu, Tyrklands og Þýskalands segir að aðgerðir Rússa muni einungis leiða til frekari uppfangs öfgasamtaka.

Sérstaklega eru teknar fram árásir í Hama, Homs og Idlib héruðum, þar sem borgarar féllu og þær árásir beindust ekki gegn ISIS.

Hér má sjá loftárásir Rússa í Sýrlandi í gær og í fyrradag.Vísir/GraphicNews
Alexi Puskov, formaður utanríkismálanefndar Rússlands, sagði blaðamönnum í morgun að Bandaríkin hefðu eingöngu þóst gera árásir gegn ISIS og lofaði að aðgerðir þeirra yrðu mun áhrifaríkari. Loftárásir Rússa í Sýrlandi eru þær fyrstu fyrir utan landamæri gömlu Sovétríkjanna frá tímum kalda stríðsins.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði í gær að mikilvægt væri að ekki yrðu gerðar loftárásir á hófsama uppreisnarhópa, sem vilja koma Bashar al-Assad, forseta Sýrlands og bandamanns Rússlands til langs tíma, frá völdum. Serkei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði hins vegar að Rússar myndu einnig berjast gegn öðrum „hryðjuverkahópum“ í Sýrlandi.

Hann sagði skotmörkin vera valin í samstarfi við sýrlenska herinn.


Tengdar fréttir

Sprengjum varpað á óvini Assads forseta

Rússar halda áfram loftárásum sínum á uppreisnarmenn í Sýrlandi. Bandaríkin segja loftárásir Rússa vera olíu á eld átakanna. Rússar stefna ekki á landhernað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×