Erlent

Þúsundir Sýrlendinga á flótta undan sókn Assad

Samúel Karl Ólason skrifar
Al-Zoabi segir þorp á svæðinu vera tóm.
Al-Zoabi segir þorp á svæðinu vera tóm. Vísir/afp
Minnst 70 þúsund Sýrlendingar hafa nú flúið heimili sín undan sókn stjórnarhers Sýrlands og bandamanna þeirra. Flestir flúðu þeir frá svæðum suður af borginni Aleppo á síðustu þremur dögum. Aðgerðarsinninn og læknirinn Zaidoun al-Zoabi, segir að nokkur þorp sem hann heimsótti á svæðinu sé tóm.

Í samtali við breska ríkisútvarpið segist hann hafa mætt þúsundum sem væru á vergangi, án skjóls og stuðnings. Þar að auki hafa myndir af fjölda manns á flótta birst á samfélagsmiðlum frá Sýrlandi.

Undanfarin misseri hefur stjórnarher Sýrlands, auk vígamanna Hezbollah og íranskra hermanna, gert minnst fjórar gagnsóknir gegn uppreisnarhópum og vígahópum í norðvesturhluta Sýrlands. Sóknir þeirra eru studdar af loftárásum Rússa.

Þá gerði Íslamska ríkið einnig sókn gegn uppreisnarhópunum og tóku vígamenn samtakanna þó nokkur þorp í norðurhluta Sýrlands.

Áður en loftárásir Rússa hófust í síðasta mánuði höfðu uppreisnarhóparnir sótt fram inn á yfirráðasvæði Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Ný vopn

Uppreisnarmenn úr hópnum Free Syrian Army sögðu Reuters fréttaveitunni að þeir hefðu nýlega fengið ný vopn frá Bandaríkjunum. Þar á meðal eru sérstök flugskeyti sem notuð eru til að granda skriðdrekum.

Þrátt fyrir nýju vopnin hafa uppreisnarmennirnir ekki getað stöðvað sóknina gegn þeim.

Hér að neðan má sjá kort yfir stöðu mála í Sýrlandi sem unnið er af greinendum Institute for United Conflict Analysts. Kortið er unnið upp úr ýmsum gögnum eins og fjölmiðlum, yfirlýsingum stríðandi fylkinga og samfélagsmiðlum.

Einnig er hægt að sjá kort hér, sem unnið er af Institute for the Study of War. Þar má einnig sjá yfirlit yfir loftárásir Rússlands og Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Undirbúa sókn í Aleppo

Sýrlenski herinn, Hezbollah og íranskir hermenn, studdir af loftárásum Rússa ætla að reka uppreisnarmenn úr borginni.

Fundað um flóttamannamál í Brussel

Leiðtogar Evrópusambandsríkja ætla að hittast á fundi í Brussel í dag til þess að ræða flóttamannavandann í álfunni og verður Tyrkland í brennidepli á fundinum. Um 600 þúsund flóttamenn hafa komið til ESB það sem af er ári og fóru flestir þeirra í gegnum Tyrkland að því er fram kemur í frétt um málið hjá BBC.

Skutu niður dróna í lofthelgi Tyrkja

Tyrkneskar herþotur skutu niður ómerktan dróna í lofthelgi Tyrkja nærri Sýrlandi um hádegisbilið í dag. Ekki liggur fyrir á hvers vegum dróninn var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×