Innlent

Ísland eftirbátur Norðurlandanna í netöryggi

Ingvar Haraldsson skrifar
Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar
Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar
Ísland er eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að netöryggi. Til að bregðast við því þarf að víkka út starf CERT-ÍS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar. Þetta segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri stofnunarinnar.

Óvissa ríkir um starfsemi CERT-ÍS þar sem ekki hefur orðið af fyrirhuguðum flutningi hópsins til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra líkt og ráðgert hefur verið frá því í fyrravor þar sem nauðsynlegar lagabreytingar hafi ekki verið afgreiddar á Alþingi.

Í nýútkominni ársskýrslu CERT-ÍS eru framtíðarhorfur sveitarinnar sagðar dekkri en áður. Ekki hafi tekist að veita nægjanlega aðstoð í baráttunni gegn netárásum.

Starfsmönnum stofnunarinnar hafi jafnframt fækkað úr þremur í tvo sem sé of lítið miðað við starfsemi stofnunarinnar.

„Þetta gerði það að verkum að ýmis verkefni sveitarinnar voru upp frá þessu í óvissu og hreinlega náðust ekki fram,“ segir í ársskýrslunni.

Hrafnkell bendir á að netárásum fari fjölgandi bæði hér á landi og á heimsvísu. Við því þurfi að bregðast.

„Það þarf að víkka út starfsemina yfir á alla mikilvæga upplýsingainnviði,“ segir Hrafnkell í samtali við Fréttablaðið og nefnir þar banka- og orkugeirana en engin opinberir netöryggissveit starfar nú í þeim geirum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×