Erlent

Grunaðir um að skipu­leggja hryðju­verk á jóla­markaði

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Aukin öryggisgæsla er á jólamarkaðnum í Magdeburg í ár, en í fyrra létust sex þegar bíl var ekið á hóp fólks á markaðnum.
Aukin öryggisgæsla er á jólamarkaðnum í Magdeburg í ár, en í fyrra létust sex þegar bíl var ekið á hóp fólks á markaðnum. EPA

Lögreglan í Bayern í Þýskalandi hefur handtekið fimm menn sem grunaðir eru um að leggja á ráðin um að fremja hryðjuverk á jólamarkaði. 

Mennirnir fimm eru grunaðir um að hafa skipulagt að aka bíl á hóp fólks á jólamarkaði í Dingolfing-Landau í suðurhluta Bayern. Lögreglu grunar að árásarhvatinn hafi verið trúarlegs eðlis. 

Lögregla veitti ekki upplýsingar um hvenær árásin átti að vera gerð.

BBC hefur eftir saksóknara að einn mannanna, 56 ára Egypti, hafi kallað eftir árás þar sem eins margir og mögulegt væri yrðu drepnir. Þrír menn í hópnum, Marókkóar á aldrinum 22 til 30 ára, hafi þá samþykkt að fremja árásina. Sýrlendingur á fertugsaldri er grunaður um að hafa hvatt til árásarinnar.

Bild hefur eftir heimildum að Egyptinn starfi sem imam í mosku á svæðinu. 

Mennirnir fóru fyrir dómara í gær og verða áfram í haldi lögreglu. 

Mikil öryggisgæsla hefur verið á jólamörkuðum um allt Þýskaland vegna voðaverkanna í Magdeburg í fyrra, þegar sex létust eftir að bíl var ekið á hóp fólks á jólamarkaði. Þá eru níu ár síðan tólf voru drepnir í hryðjuverkaárás á jólamarkað í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×