Erlent

Fundu muni sem hylltu ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Eisenhuettenstadt í dag.
Lögregluþjónar að störfum í Eisenhuettenstadt í dag. Vísir/AFP
Lögregluþjónar fundu sprengjugerðarefni og tæki í íbúð manns sem var handtekinn í bænum Eisenhuettenstadt í dag. Þar fundust einnig munir sem „hylla Íslamska ríkinu“ samkvæmt lögreglunni. Auk þess fannst gasgríma, gervi-riffill og fleira.

Maðurinn sem var handtekinn er 27 ára gamall Þjóðverji sem segist hafa tekið upp Íslam fyrir um sjö árum síðan. Hann er góðkunningi lögreglunnar og hefur margsinnis verið handtekinn vegna glæpa sem tengjast fíkniefnum, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Fyrr í dag bárust fregnir af því að maðurinn hafi ætlað að gera árás á hátíðarhöld í bænum í haust. Lögreglan segir það hins vegar ekki liggja fyrir.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í dag að flóttafólk væri ekki að flytja hryðjuverk til Þýskalands. Hún sagði Íslam eiga heima í Þýskalandi svo lengi sem trúin væri iðkuð í takti við stjórnarskrá landsins.

Meira en milljón manns flúðu til Þýskalands í fyrra og hefur andrúmsloftið breyst verulega á undanförnum misserum. Nokkrar árásir hafa verið gerðar þar í landi og þar af þrjár af flótta- og farandfólki samkvæmt frétt Guardian. Íslamska ríkið hefur eignað sér tvær af þeim.

Ánægja með störf Merkel og stefnur hennar í málefnum flóttafólks hefur farið snarlega minnkandi. Hún sagði hins vegar að talið væri að rúmlega 800 Þjóðverjar hefðu ferðast til Sýrlands og Írak til að ganga til liðs við vígahópa. Hryðjuverk hefðu verið vandamál um árabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×