Erlent

Rússar eigna sér dráp á talsmanni ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Muhammad al-Adnani, háttsettur leiðtogi og talsmaður Íslamska ríkisins.
Abu Muhammad al-Adnani, háttsettur leiðtogi og talsmaður Íslamska ríkisins.
Yfirvöld í Rússlandi segja að Abu Muhammad al-Adnani, háttsettur leiðtogi og talsmaður Íslamska ríkisins, hafi verið felldur í loftárás í gær. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að um 40 vígamenn hafi verið felldir í loftárásinni sem gerð var í borginni Aleppo.

Fregnir af falli hans bárust úr búðum ISIS í gær. Bandaríkin höfðu áður sagt að al-Adnani hefði líklegast verið felldur í loftárás þeirra.

Al-Adnani var einn af upprunalegum stofnendum ISIS í Írak. Fáir af þeim eru enn lifandi en þar á meðal er Abu Bakr al-Bagdadi, æðsti leiðtogi samtakanna. Al-Adnani er sagður hafa verið maðurinn á bakvið áróðursvél samtakanna og einn af helstu hernaðarleiðtogum þeirra.

Í tilkynningu frá Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir al-Adnani hafi verið næstráðandi ISIS. Þá segir að leyniþjónustur Rússlands hafi staðfest að hann hafi fallið í árás þeirra í Aleppo.

Bandaríkin sögðu í gær að hann hefði líklega verið felldur í loftárás þeirra nærri Aleppu í síðustu viku. Hann hafi verið skotmark árásarinnar en ekki hafi verið staðfest að hann hafi verið felldur.

Al-Adnani kallaði fyrr á árinu eftir hryðjuverkaárásum gegn vesturveldunum á föstumánuði múslima, Ramadan. AP fréttaveitan segir að það kall hafi leitt til einhvers blóðugasta mánaðar í manna minnum. Fylgisveinar ISIS hafi meðal annars gert skotárásina í Orlando, trukkaárásina í Nice og gífurlega öfluga sprengjuárás í Baghdad.

Uppfært 15:15

Bandarískir embættismenn sem Reuters ræddi við segja tilkynningu Rússa vera „brandara“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×