Erlent

Skutu eldflaugum í hefndarskyni fyrir líkvökuárásina

Samúel Karl Ólason skrifar
USS Mason á Hudson ánni.
USS Mason á Hudson ánni. Vísir/GEtty
Hútar skutu eldflaugum að Sádi-Arabíu og bandarísku herskipi í gær. Árásirnar eru taldar hafa verið gerðar í hefndarskyni vegna loftárásar Sáda á líkvöku í Jemen á laugardaginn. Minnst 140 létu lífið loftárásinni og 525 eru særðir.

Bandaríkin segja að tveimur flaugum hafi verið skotið að USS Mason, en Hútar neita fyrir að hafa skotið þeim. Hvorug flaugin hitti skipið. Þá segjast Sádar hafa skotið niður eldflaug sem skotið var að herstöð í Sádi-Arabíu.

Aðgerðir Sáda og bandamanna þeirra í Jemen hófust fyrir um átján mánuðum og er tilgangur þeirra að koma forsetanum Abd Rabbu Mansour al-Hadi aftur til valda. Uppreisnarmenn Húta ráku hann frá höfuðborg Jemen fyrir um tveimur árum. Eldflaug var einnig skotið að bænum Marib, sem er í haldi sveita sem eru hliðhollar forsetanum.

Minnst tíu þúsund manns hafa fallið í átökunum í Jemen, sem er fátækasta ríki Arabíuskagans.

Í loftárásinni á laugardaginn féllu margir valdamiklir menn í Jemen og leiðtogar stórra ættbálka. Sérfræðingar sem Reuters ræddi við segja líklegt að árásin muni efla uppreisn Húta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×