Erlent

ISIS-liðar náðu skriðdrekum og skotvopnum í Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
ISIS-liðar hafa birt myndir af ýmsum vopnum og skriðdrekum í Palmyra.
ISIS-liðar hafa birt myndir af ýmsum vopnum og skriðdrekum í Palmyra.
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa tekið borgina Palmyra úr höndum stjórnarhers Sýrlands. Þeir voru reknir úr borginni í mars með aðstoða loftárása Rússa. Eftir harða bardaga í fjóra daga flúði stjórnarherinn og skildi eftir fjölda skriðdreka og þungavopn í borginni sem ISIS-liðar hafa nú tekið stjórn á.

Þar á meðal eru skriðdrekar, brynvarðir bílar og eldflaugar og fleira.

Samkvæmt Financial Times vekur fall Palmyra upp spurningar um hvort að stjórnarherinn búi yfir nægum mannafla til að berjast gegn uppreisnarmönnum og ISIS í Sýrlandi. Undanfarnar vikur hefur herinn og Rússar einbeitt sér að uppreisnarmönnum og vígamönnum í Aleppo í norðanverðu landinu, sem er nú að falli komin.

Syrian observatory for human righst segja hundruð vígamanna ISIS hafa flúið frá Mosul í Írak og að þeir hafi verið sendir vítt og breitt um Sýrland. Þorri þeirra hafi þó verið sendur til að taka þátt í árásinni á Palmyra.

ISIS-liðar hafa einnig birt myndir af stórskotavopnum, eldflaugum, brynvörðum bílum og jafnvel loftvarnarbyssum.

Áður en vígamenn ISIS voru reknir frá Palmyra í mars höfðu þeir stjórnað borginni í tæpt ár. Á þeim tíma höfðu þeir sprengt upp fjölda fornra hofa og rústa og haldið fjöldaaftökur í rústum rómversks hringleikahúss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×