Erlent

Árásin í Berlín: Merkel vill hraða brottvísunarferli hælisleitenda

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að hún vilji fjölga brottvísunum hælisleitenda og hraða brottvísunarferli hjá þeim sem hafa fengið neitun frá yfirvöldum.

Merkel greindi frá þessu á fréttamannafundi sínum fyrr í dag. Kanslarinn sagðist hafa rætt við forseta Túnis, Beji Caid Essebsi, fyrr í dag. Sagði hún að þýskum yfirvöldum hafi tekist að hraða brottvísunarferlinu þegar kæmi að túnískum ríkisborgurum. „Ég greindi forseta Túnis frá því að við verðum að hraða ferlinu enn frekar og auk fjölda þeirra sem eru sendir til baka,“ sagði Merkel.

Túnisinn Anis Amri var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó á Ítalíu í nótt, en hann er grunaður um að hafa borið ábyrgð á hryðjuverkaárásinni á jólamarkaðnum í Berlín á mánudag þar sem tólf manns fórust og tugir særðust.

Merkel lagði áherslu á að rannsókninni á árásinni væri á engan hátt lokið, þar sem fram hefur komið að hann hafi áður verið undir eftirliti vegna gruns um að hann væri að undirbúa árás. Sagði Merkel að ef Amri hafi átt samverkamenn verði þeir látnir svara til saka.

Merkel sagði enn frekar að Þýskalandi stæði enn ógn af hryðjuverkum og að það krefðist mikillar vinnu að tryggja öryggi almennings. Loks þakkaði hún ítölsku lögreglunni fyrir sitt starf.


Tengdar fréttir

ISIS birtir myndband af Anis Amri

Áróðursdeild ISIS hafa birt myndband þar sem Túnisinn Anis Amri sver hollustu við hryðjuverkasamtökin.

Bauðst til að fremja sjálfsvígsárás

Fjölskylda Anis Amri í Túnis er furðu lostin og hneyksluð á honum. Hann komst í kynni við öfgamenn þegar hann sat í fangelsi á Ítalíu. Yfirvöld í Túnis sendu ekki nauðsynlega pappíra til Þýskalands fyrr en á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×