Körfubolti

Joel Embiid náði því í nótt sem bara Allen Iverson hefur afrekað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid.
Joel Embiid. Vísir/AP
Joel Embiid, nýliði Philadelphia 76ers í NBA-deildinni í körfubolta, hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á sínu fyrsta ári í deildinni.

Þjálfararteymi Philadelphia 76ers heldur aftur af stráknum með því að leyfa honum ekki að spila nema ákveðið magn af mínútum í hverjum leik.

Meiðslasaga Embiid er þannig að menn standast allar freistingar og spara sinn besta leikmann.

Joel Embiid var valinn í nýliðavalinu 2014 en missti af tveimur fyrstu tímabilum sínum vegna meiðsla.

Þjálfarar 76ers passa því upp á að álagið verði ekki of mikið og er strákurinn því ekki að spila nema 25,4 mínútur að meðaltali í leik í vetur.

Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að Joel Embiid er kominn í hóp með Allen Iverson.

Þeir tveir eru einu nýliðarnir í sögu Philadelphia 76ers sem hafa skorað yfir tuttugu stig í tíu leikjum í röð.



Joel Embiid náði tíunda tuttugu stiga leiknum í röð þegar hann skoraði 26 stig á 27 mínútum í sigri á móti Toronto Raptors.

Það sem meira er að Joel Embiid hefur aldrei spilað meira en 30 mínútur í þessum tíu leikjum og Philadelphia 76ers liðið hefur unnið sjö þeirra.

Joel Embiid er með 19,9 stig og 7,8 fráköst að meðaltali á 25,4 mínútum og er síðan einnig með 2,4 varin skot og 2,0 stoðsendingar að meðaltali.

Þegar þessar tölur eru uppfærðar á „eðlilegan“ leiktíma (36 mínútur í leik) fyrir unga NBA-stórstjörnu þá væri Embiid með 28,2 stig, 11,0 fráköst, 3,4 varin skot og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×