Erlent

Skaut sig frekar en að lenda í haldi ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Breskur maður sem lést í bardaga gegn vígamönnum Íslamska ríkisins í Sýrlandi í desember, er sagður hafa skotið sig svo hann lenti ekki í haldi ISIS. Ryan Lock, sem er tuttugu ára gamall, var umkringdur ásamt fjórum öðrum meðlimum YPG í þorpinu Ja'bar þegar hann féll.

Vígamenn ISIS hafa birt myndband og myndir af líki Lock á samfélagsmiðlum á dögunum, en Kúrdar náðu í lík mannanna fimm og verið er að flytja Lock aftur til Bretlands.

Samkvæmt heimildum BBC er Lock sagður hafa tekið þá ákvörðun að taka eigið líf eftir að hann og fjórir félagar hans veittu harða mótspyrnu gegn umsátri ISIS-liða. Sár á líki hans gefa það til kynna.

Lock er kokkur, en hann fór til Sýrlands í ágúst, eftir að hafa sagt fjölskyldu og vinum að hann væri á leið til Tyrklands í frí. Hann gekk þó til liðs við sýrlenska Kúrda og barðist gegn ISIS. Hann er þriðji Bretinn sem hefur gengið til liðs við YPG og fallið í bardögum við ISIS.

Í yfirlýsingu til BBC segir faðir Lock að andlát hans hafi reynst fjölskyldunni erfitt en þau sé mjög þakklát Kúrdum fyrir að ætla að flytja Lock aftur til Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×