Yfirvöld Norður-Kóreu skutu eldflaug á loft í dag í grennd við Kusong, norðvestan við höfuðborg landsins, Pyongyang. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heryfirvöldum í Suður-Kóreu.
Í frétt BBC segir að flaugin sé talin hafa flogið um 700 kílómetra. Japönsk yfirvöld segja eldflaugina enn fremur hafa verið í loftinu í um 30 mínútur áður en hún hafnaði í Japanshafi. Þetta er fyrsta eldflaugarskot Norður-Kóreu síðan nýkjörinn forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, tók við embætti.
Norður-Kórea skaut tveimur eldflaugum á loft í síðasta mánuði en tilraunirnar misheppnuðust báðar, flaugarnar sprungu í loft upp stuttu eftir flugtak.
Yfirvöld Suður-Kóreu og Japans hafa bæði fordæmt eldflaugaskotið, sem er nýjasta útspil Norður-Kóreu í röð vopnatilrauna. Þá kallaði forseti Suður Kóreu eftir fundi með öryggisráði sínu.
Þrátt fyrir andstöðu Sameinuðu þjóðanna og annarra innan alþjóðasamfélagsins hafa norður-kóresk yfirvöld haldið áfram að gera prófanir á vopnum sínum.
Norður-Kórea skaut nýrri eldflaug á loft

Tengdar fréttir

Bandaríkin íhugi „fyrirbyggjandi árás“ á Norður-Kóreu
John McCain segir að það væri „flónska“ ef bandarísk stjórnvöld útilokuðu hernaðaraðgerðir gegn Norður-Kóreu vegna kjarnorkubrölts þeirra.

Trump ekki kátur með eldflaugatilraunir Norður-Kóreu
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ekki sáttur við eldflaugatilraun Norður-Kóreu sem gerð var í gærkvöldi. Hann segir að með tilrauninni hafi Norður-Kórea vanvirt Kína, það sé slæmt.

Norður-Kóreumenn segjast reiðubúnir til viðræðna
Norður-Kóreumenn segja að þeir séu opnir fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn "undir réttum kringumstæðum.“