Körfubolti

Ósigrandi Warriors-menn komnir með sópinn á loft

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þessir eru á leið í úrslitin þriðja árið í röð nema eitthvað stórkostlegt gerist.
Þessir eru á leið í úrslitin þriðja árið í röð nema eitthvað stórkostlegt gerist. vísir/getty
Golden State Warriors er einum sigri frá úrslitaleik NBA-deildarinnar eftir tólf stiga sigur 120-108 gegn San Antonio Spurs á heimavelli Spurs í nótt en Warriors eru enn ósigraðir í úrslitakeppninni í ár.

Spurs lék án síns besta leikmanns, Kawhi Leonard, annan leikinn í röð en eftir að hann fór útaf í fyrsta leik þar sem Spurs var með 25 stiga forskot hefur lið Spurs aldrei séð til sólar.

Leikurinn í nótt var í raun síðasti leikur San Antonio til að gera þetta einvígi spennandi á ný og virtust leikmenn liðsins vita af því í upphafi leiks og leiddu að fyrsta leikhluta loknum 33-29.

Þeir héldu því forskoti fyrstu mínútur annars leikhluta en hið gríðarlega vel mannaða lið Warriors tókst að snúa leiknum sér í hag og tók níu stiga forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 64-55.

Um tíma náði Warriors átján stiga forskoti í þriðja leikhluta en heimamenn náðu í raun aldrei að ógna forskoti þeirra af alvöru í síðari hálfleik og fór svo að Warriors-menn unnu sannfærandi sigur.

Kevin Durant var stigahæstur í liði Golden State með 33 stig og 10 fráköst en gamli refurinn Manu Ginobili var stigahæstur í liði Spurs með 21 stig.

Næsti leikur fer fram á mánudaginn og verður það að teljast líklegt að þar ljúki þátttöku Spurs-manna í úrslitakeppninni á þessu tímabili.

Liðið hefur verið hálf rænulaust eftir meiðsli Leonard og hafa stjörnur á borð við LaMarcus Aldridge alls ekki stigið upp í hans fjarveru, í raun dregið sig inn í skelina þess í stað.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×