Erlent

Kólerufaraldur í Jemen: Yfir 100 þúsund manns smitaðir og tölur fara hækkandi

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Frá sjúkrahúsi í Jemen.
Frá sjúkrahúsi í Jemen. Vísir/AFP
Tilfelli kólerusmitaðra í Jemen hefur hækkað töluvert undanfarna mánuði. Talið er að yfir 100 þúsund manns séu smitaðir. Tilkynnt var um fyrstu smit í lok apríl þessa árs og hefur kólerusmit dreift sér um 19 af 23 héruðum landsins. Talsmaður Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar WHO hefur staðfest að 789 manns hafi þegar látist af völdum sjúkdómsins. Reuters greinir frá.

„Jemen stendur á barmi alvarlegs kólerufaralds sem ekki hefur þekkst áður,“ segir í tilkynningu frá  mannréttindadeild Sameinuðu þjóðanna. Nefnt er að hungursneyð spili einnig stóran þátt í ástandinu.

Landið stendur illa  að vígi í baráttunni gegn kóleru en borgarastríð hefur geysað þar í landi í tvö ár. Flest öll innviði landsins eru því í molum og heilbrigðiskerfið stendur ekki undir álaginu.Undir venjulegum kringumstæðum er auðvelt að meðhöndla kóleru en eins og staðan er í dag þá virðist það ekki vera möguleiki. Stór hluti íbúa Jemens hefur því mikla þörf fyrir aðstoð frá neyðarsamtökum eða um 19 milljónir af 28 miljlónum. Lífið í Jemen snýst því ekki einungis um borgarastríðið heldur hefur hungursneyð og kólerufaraldur nú bæst við áhyggjuefni íbúanna.

WHO hefur nú þegar varað við því að óbreytt ástand geti orðið til þess að fjöldi smitaðra hækki upp í 300 þúsund þrátt fyrir að tilfellum hafi fækkað lítillega fyrstu vikuna í júní miðað við stöðuna í lok maí.

 


Tengdar fréttir

Hungursneyð í Jemen

Hungursneyð ríkir í Jemen af völdum langvarandi borgarastyrjaldar. Talið er að barn yngra en fimm ára svelti í hel á tíu mínútna fresti í landinu. Áætlað er að brýn þörf sé á ríflega 200 milljarða króna neyðaraðstoð til landsins.

Kólerufaraldur í Jemen

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Sanaa, höfuðborg Jemen, en kólerufaraldur hefur nú dregið fjölda fólks í borginni til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×