Körfubolti

Drexler ósammála LeBron: Houston var ekki fyrsta ofurliðið í NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Clyde Drexler, Hakeem Olajuwon og Charles Barkley mynduðu hryggjarstykkið í sterku liði Houston um miðjan 10. áratug síðustu aldar.
Clyde Drexler, Hakeem Olajuwon og Charles Barkley mynduðu hryggjarstykkið í sterku liði Houston um miðjan 10. áratug síðustu aldar. vísir/getty
Clyde Drexler segir að lið Houston Rockets tímabilið 1995-96 hafi ekki verið fyrsta ofurliðið í sögu NBA-deildarinnar eins og LeBron James hélt fram á dögunum.

Talsverð umræða skapaðist um svokölluð ofurlið í sögu NBA-deildarinnar eftir að James fullyrti að hann hefði verið hluti af slíku liði.

Í hlaðvarpinu Road Trippin', sem er í umsjón Richards Jefferson og Channings Frye, samherja James hjá Cleveland Cavaliers, benti James á að Houston-liðið 1995-96 og Los Angeles Lakers 2003-04 hafi verið fyrstu ofurliðin í NBA.

Umrætt Houston-lið innihélt, auk Drexlers, Hakeem Olajuwon og Charles Barkley. Í Lakers-liðinu 2003-04 voru svo Kobe Bryant, Shaquille O'Neal, Karl Malone og Gary Payton.

Drexler vill ekki meina að Houston-liðið hans hafi verið fyrsta ofurliðið í NBA.

„Ég elska LeBron en ég er á annarri skoðun,“ sagði Drexler og nefndi lið Lakers og Boston Celtics á 9. áratug síðustu aldar sem voru með stjörnur í nánast hverri einustu stöðu. Drexler nefndi einnig lið Boston á 7. áratugnum.

„Þessi fyrstu Celtics-lið á 7. áratugnum með Bill Russell, [John] Havlicek, [Bob] Cousy og Sam Jones. Það var fyrsta ofurliðin. Svo þetta nær lengra aftur,“ sagði Drexler sem varð NBA-meistari með Houston árið 1995.

Bill Russell var hluti af fyrsta ofurliðinu í sögu NBA að mati Drexlers.vísir/epa
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×