Líkið sem danska lögreglan fann fyrr í dag í sjónum fyrir utan Kaupmannahöfn var sundurlimað og án höfuðs, handleggja og fóta. Líkið fannst á því svæði sem leitað hefur verið á að sænsku blaðakonunni Kim Wall sem hvarf í síðustu viku.
Staðfest hefur verið að líkið sé af kvenmanni og hefur tæknideild lögreglu það nú til skoðunar svo unnt sé að bera kennsl á líkið.
„Það er ljóst að við, líkt og fjölmiðlar sem og allir aðrir, hafa áhuga á að vita hvort að líkið er af Kim Wall. Um það er of snemmt að segja,“ sagði Jens Møller Jensen, yfirmaður rannsóknarinnar á hvarfi Kim Wall.
Sagði hann á blaðamannafundi í kvöld að ljóst væri að líkið hefði legið í sjónum í nokkurn tíma. Lögregla muni áfram leita á nærliggjandi svæði í von um að finna þá líkamshluta sem vantar á líkið.
Peter Madsen, sem er í haldi lögreglu grunaður um aðild að hvarfi Wall, hefur viðurkennt að hafa varpað líki sænsku blaðakonunnar fyrir borð í kafbáti sínum. Slys hafi orðið um borð í bátnum sem hafi leitt til dauða hennar.
Síðast sást til hinnar þrítugu Wall fimmtudaginn 10. ágúst en hún var með Madsen í kafbátnum í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen var handtekinn á laugardaginn grunaður um manndráp af gáleysi eftir að kafbáturinn UC3 Nautilus sökk á föstudaginn.
Hann var í kjölfarið úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald, en neitaði til að byrja með að hafa orðið Wall að bana.

