Erlent

Staðan við suðumark

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Íbúar í Suður-Kóreu fylgdust skelkaðir með fréttum af eldflaugarskotinu.
Íbúar í Suður-Kóreu fylgdust skelkaðir með fréttum af eldflaugarskotinu. vísir/epa
Spennan á Kóreuskaganum nálgast þolmörk. Þetta segir í yfirlýsingu frá kínverska utanríkisráðuneytinu.

Andað hefur köldu milli ríkjanna tveggja á skaganum frá því stríði þeirra lauk á sjötta áratug síðustu aldar. Nú síðast í fyrradag þegar eldflaug var skotið frá landinu yfir Japan. Vakti það litla lukku hjá Japan, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum. Tvö síðarnefndu ríkin brugðust við með því að auka heræfingar við landamæri norðurríkisins.

Í yfirlýsingunni kalla stjórnvöld í Peking eftir því að Norður-Kórea hætti eldflaugatilraunum sínum en einnig að Suður-Kórea og Bandaríkin láti af hernaðarbrölti fyrir sunnan 38. breiddargráðu.

„Við vonumst til þess að deilu­aðilar íhugi hvernig unnt sé að lægja öldurnar á skaganum með það að markmiði að koma þar á friði og stöðuleika,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×