Yfirvöld Suður-Kóreu fylgjast nú náið með nágrönnum sínum i norðri og telja líklegt að til standi að gera frekari eldflaugatilraunir í Norður-Kóreu. Talskona Sameiningarráðuneytis Suður-Kóreu sagði AP fréttaveitunni að slík tilraun yrði mögulega framkvæmd á laugardaginn þegar Norður-Kóreumenn fagna stofnun ríkisins.
Þá kemur 10. október til greina en þá er afmæli stjórnmálaflokks Norður-Kóreu. Mikil hefði er fyrir því að Norður-Kórea haldi upp á daga sem þykja mikilvægir með því að sýna mátt sinn.
Norður-Kóreumenn sprengdu öfluga kjarnorkusprengju á sunnudaginn, sem þeir segja að hægt sé að koma fyrir í langdrægri eldflaug. Þetta var sjötta kjarnorkusprengjan sem sprengd var í tilraunaskyni þar í landi og sú öflugasta.
Þá hefur Norður-Kórea einnig gert margar eldflaugatilraunar á undanförnum mánuðum. Þar af tvær í júlí þar sem tveimur langdrægum eldflaugum var skotið á loft. Niðurstöður þeirra tilrauna gefa í skyn að þeir gætu skotið slíkum eldflaugum að meginlandi Bandaríkjanna.
Bandaríkin, Suður-Kórea og Japan hafa kallað eftir ströngum refsiaðgerðum og að jafnvel að ölíusala til Norður-Kóreu verði stöðvuð. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur jafnvel sagt að hernaðaraðgerðir komi til greina.
Kínverjar og Rússar segja hins vegar að viðvræður séu eina leiðin til að stöðva eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlanir Norður-Kóreu.
Telja nýtt eldflaugaskot líklegt
Samúel Karl Ólason skrifar
