Erlent

Segjast hafa smíðað háþróaða vetnissprengju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu, KCNA, gaf í dag út ljósmyndir af leiðtoga einræðisríkisins, Kim Jong-un, þar sem hann sást yfirfara nýja vetnissprengju,
Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu, KCNA, gaf í dag út ljósmyndir af leiðtoga einræðisríkisins, Kim Jong-un, þar sem hann sást yfirfara nýja vetnissprengju, Vísir/afp
Yfirvöld í Norður-Kóreu segjast hafa smíðað háþróaða vetnissprengju, enn þróaðra vopn en þau sem hingað til hafa verið smíðuð af ríkinu. Þá á að vera hægt að koma vopninu fyrir á langdrægri eldflaug. BBC greinir frá.

Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu, KCNA, gaf í dag út ljósmyndir af leiðtoga einræðisríkisins, Kim Jong-un, þar sem hann sást yfirfara nýja vetnissprengju, að því er fréttastofan fullyrðir. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest af óháðum aðilum.

„Stofnuninni [sem þróar kjarnavopn Norður-Kóreu] tókst nýlega að smíða háþróaðra kjarnavopn en gert hefur verið hingað til,“ segir í fréttinni. „Hann (Kim Jong-un) fylgdist með því þegar vetnissprengja var sett inn í nýja langdræga eldflaug (ICMB).“

Þá var sprengjunni lýst sem „fjölhagnýtri vetnissprengju með gríðarlegan eyðileggingarmátt sem jafnvel er hægt að sprengja í mikilli hæð.“

Sérfræðingar eru flestir sammála um að Norður-Kórea hafi tekið miklum framförum í þróun á kjarnavopnum sínum á síðustu mánuðum og árum. Enn er þó óljóst hvort yfirvöldum hafi tekist að þróa vopn sem hægt er að festa á eldflaug.

Norður-Kórea hefur lengi haft það að yfirlýstu markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ á langdræga eldflaug sem næði til skotmarka um allan heim.

Nýjasta vopnatilraun Norður-Kóreu var gerð í síðustu viku þegar eldflaug var skotið yfir Japan. Sú eldflaug er talin sú fyrsta í vopnabúri Norður-Kóreu-manna sem gæti mögulega borið kjarnaodd.


Tengdar fréttir

Norður-Kóreumenn tilbúnir í eldflaugaárás á Gvam von bráðar

Her Norður-Kóreu er sagður leggja lokahönd á áætlun um að skjóta eldflaugum að Gvam. Ríkisfjölmiðlar einræðisríkisins segja Donald Trump Bandaríkjaforseta of „skyni skroppinn“ til að hægt sé að eiga viðræður við hann.

Vill skjóta fleiri eldflaugum í Kyrrahafið

Ríkismiðill Norður-Kóreu segir Kim hafa lýst yfir mikilli ánægju með eldflaugaskotið í gær og kallað það mikilvægt skref í því að einangra Gvam.

Birta leiðbeiningar fyrir íbúa vegna kjarnorkusprengjuárásar

Meðal ráðlegginga sem fram koma í leiðbeiningum Varnarmálaráðuneytis Gvam, er að fólk ætti að búa til lista yfir staði nærri vinnustöðum þeirra og heimilum þar sem hægt væri að leita sér skjóls og koma safna neyðarbirgðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×