Erlent

Boðað til mótmæla gegn sjálfstæði Katalóníu í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur í Oviedo lýstu stuðningi við einingu Spánar með áletrun á þjóðfánanum í gær.
Mótmælendur í Oviedo lýstu stuðningi við einingu Spánar með áletrun á þjóðfánanum í gær. Vísir/AFP
Mótmæli hafa verið boðuð í Madrid, höfuðborg Spánar, og fleiri borgum gegn sjálfstæði Katalóna í dag. Fyrrverandi leiðtogi héraðsstjórnarinnar í Katalóníu segir héraðið ekki tilbúið fyrir raunverulegt sjálfstæði ennþá.

Alls eru 90% þeirra 2,3 milljóna Katalóna sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sjálfstæði sem fór fram á sunnudag sögð hafa samþykkt að lýsa yfir sjálfstæði.

Spænska landsstjórnin hefur lýst atkvæðagreiðsluna ólöglega. Framkvæmd hennar hefur einnig verið gagnrýnd en spænsk yfirvöld lögðu einnig hald á fjölda kjörkassa.

Artur Mas, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, segir við Financial Times að hann telji héraðið enn ekki tilbúið fyrir raunverulegt sjálfstæði þó að hann trúi því að það hafi unnið sér inn réttinn til þess að lýsa því yfir.

Gætu haldið að sér höndum í bili

Óljóst er hver næstu skref verða í átökum katalónsku héraðsstjórnarinnar gegn landsstjórninni. Rætt hafði verið um að héraðsþingið myndi lýsa yfir sjálfstæði á mánudag þegar það kemur saman. Stjórnlagadómstóll Spánar bannaði hins vegar þingfundinn.

Nú er talið að Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, ávarpi þingið á þriðjudag og gefi skýrslu um stjórnmálaástandið, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fréttaritari BBC á Spáni segir að stjórnarmálakreppa blasi við í landinu lýsi Katalónar einhliða yfir sjálfstæði eða ef stjórnvöld í Madrid ákveða að svipta héraðsstjórnina sjálfsstjórn. Merki séu þó um að yfirvöld bæði í Barcelona og Madrid muni halda að sér höndum í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×