Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, segir að Norður-Kóreumenn séu opnir fyrir beinum viðræðum við Bandaríkjamenn til að létta á spennunni á Kóreuskaga sem sjaldan eða aldrei hefur verið meiri.
Guardian segir frá því að Lavrov hafi komið þessum skilaboðum áleiðis til kollega síns í Bandaríkjunum, Rex Tillerson, þegar þeir hittust í Vín í Austurríki í gær.
Tillerson hefur ekki tjáð sig um hugmyndina en utanríkisráðuneytið hefur áður sagt að Norður-Kóreumenn verði að sýna það í verki að þeir séu reiðubúnir að hætta kjarnorkutilraunum sínum, áður en hægt er að hefja viðræður.
Það hafa þeir sannarlega ekki gert, heldur þvert á móti hert á vopnaþróun sinni síðustu mánuði.

