Erlent

Tugir látnir eftir röð sjálfsmorðsárása

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stórt svæði hefur verið girt af vegna árásarinnar.
Stórt svæði hefur verið girt af vegna árásarinnar. Vísir/afp
Að minnsta kosti fjörutíu létu lífið og þrjátíu særðust í sjálfsmorðsárás í vesturhluta Kabúl, höfuðborgar Afganistans, í morgun.

Árásin var gerð á menningar- og trúarmiðstöð sjía-múslima í hverfinu. Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni innanríkisráðuneytisins í Afganistan að í kjölfar sjálfsmorðsárásarinnar hafi tvær aðrar sprengjur sprungið í nágrenninu.

Talsmaður trúarmiðstöðvarinnar segir að tugir slasaðra hafi verið fluttir á sjúkrahús og að unnið væri að því að flytja enn fleiri. Fjöldi námsmanna er sagður hafa verið í höfuðstöðvunum að fræðast um fjölmiðla og fréttamennsku þegar árásin var gerð. Myndir af vettvangi árásinnar hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum og bera þær með sér að mannfall hafi jafnvel verið meira en fyrstu tölur gefa til kynna.

Enn hefur enginn lýst ábyrgð verknaðarins á hendur sér en vígamenn hins svokallaða Íslamska ríkis hafa undanfarna mánuði gert fjölmargar árásir á sjía-múslima vítt og breitt um landið. Þanig létust 39 manns í október síðastliðnum þegar árás var gerð á mosku sjía-múslima og 10 létust nú á mánudaginn þegar ráðist var á starfsmenn afgönsku leyniþjónustunnar í Kabúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×