Erlent

Viðvörunarskotum skotið þegar hermaður flúði frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Norðurkóreskir hermenn standa vörð við landmærin.
Norðurkóreskir hermenn standa vörð við landmærin. Vísir/AFP
Norðurkóreskur hermaður flúði yfir mest víggirtu landamæri heimsins. Hann mun hafa birst við varðstöð á vestanverðum landamærunum seint í gærkvöldi með aðra hermenn á hælunum en mikil þoka var á svæðinu. Hermaðurinn sem flúði í nótt er talinn vera nítján ára gamall og var hann vopnaður.

Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu hefur eftir hernaðarráði landsins að hermaðurinn hafi verið lágt settur í her Norður-Kóreu.



Suðurkóreskir hermenn skutu um tuttugu viðvörunarskotum að andstæðingum sínum þegar þeir nálguðust landamærin. Um 40 mínútum seinna heyrðust skot norðan megin við landamærin en ekki er talið að þeim hafi verið skotið til suðurs.

Þetta er fjórði hermaðurinn frá Norður-Kóreu sem flýr til Suður-Kóreu á árinu. Á þessu ári hafa alls fimmtán manns flúið beint til Suður-Kóreu. Þar af tveir í gær og einn í nótt. Allt árið 2016 var heildartalan fimm. Þá flúði einn hermaður og fjórir borgarar. Mun fleiri hafa þó flúið með því að ferðast til Kína, sem er mörgum íbúum Norður-Kóreu leyfilegt, og þaðan til Suður-Kóreu,

Fáir reyna þó að flýja yfir landamæri ríkjanna sem eru víggirt og má þar finna mikinn eftirlitsbúnað, girðingar og jarðsprengjur. Hins vegar hafa allir hermennirnir sem flúðu á árinu gert það. Einn þeirra vakti mikla athygli þegar hann flúði yfir landamæri á sameiginlegu öryggissvæði ríkjanna.

Sjá einnig: Birtu myndband af flótta hermannsins frá Norður-Kóreu



Mikil spenna er nú á Kóreuskaga eftir eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreu á árinu.

Þá sagði Zeid Ra‘ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, frá því fyrr í mánuðinum að Sameinuðu þjóðirnar áætluðu að um 18 milljónir íbúa Norður-Kóreu, eða um sjötíu prósent þjóðarinnar, þjáist af næringarskorti. 



Umtalsverðum þvingunum hefur verið beitt gegn ríkinu til að reyna að draga úr getu þeirra til að þróa kjarnorkuvopn og langdrægar eldflaugar til að bera þau vopn. Norður-Kórea eyðir verulegum hluta af tekjum ríkisins í að halda her ríkisins uppi og er mikill skortur á matvælum þar.


Tengdar fréttir

Kenna Norður-Kóreumönnum um WannaCry

Bandarísk stjórnvöld fullyrða að Norður-Kóreumenn hafi verið ábyrgir fyrir WannaCry veiruárárásinni sem gerði fólki lífið leitt í maí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×