Samkvæmt meðaltali skoðanakannana sem El País tekur saman er búist við því að Vinstri-Repúblikanar (ERC) fái flest sæti, 33 talsins af 135. Borgaraflokkurinn mælist næststærstur og spáir El País honum 32 þingsætum. Flokkur fyrrverandi héraðsforsetans Carles Puigdemont, JxCat, má búast við 27 þingsætum. Þá mælist Sósíalistaflokkurinn með 20 þingsæti. Aðrir flokkar fá færri en tíu sæti samkvæmt El Pais.
Ef spár El País reynast réttar verða aðskilnaðarsinnar með nauman meirihluta á þinginu. Alls yrðu þeir þrír flokkar sem styðja sjálfstæði með 68 þingmenn á móti 67 þingmönnum annarra flokka. Munurinn gæti ekki verið minni.

Kosningabaráttan nú hefur mikið til snúist um sjálfstæðisspurninguna. Hefur hún verið sérstök fyrir þær sakir að Oriol Junqueras, formaður ERC, er í fangelsi á Spáni og fyrrnefndur Puigdemont er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu. Báðir hafa þeir verið sakaðir um uppreisn gegn spænska ríkinu og gætu átt yfir höfði sér fangelsisdóma.
Alls hafa 13 aðskilnaðarsinnar úr katalónskum stjórnmálum verið sakaðir um slík brot. Í viðtali við Radio Catalunya í gær sagðist Puigdemont viss um að Katalónar myndu ekki lögfesta „aftöku“ ríkisstjórnarinnar. Spáði hann því að niðurstöður kosninganna myndu sýna að aðferðir Rajoy hefðu ekki borið árangur.
„Ef aðskilnaðarsinnar vinna kosningarnar og Spánverjar neita samt að fella ákærur sýnar niður sýnir það vanvirðingu þeirra fyrir lýðræðinu,“ sagði Puigdemont enn fremur.
Hin skörpu skil á milli aðskilnaðar- og sambandssinna sáust vel í kappræðum mánudagskvöldsins. Sagði Inés Arrimadas, úr sambandssinnuðum Borgaraflokki, að aðskilnaðarsinnarnir ættu að koma sér út úr „lýðveldisbúbblu“ sinni. „Aðskilnaðarsinnar hafa eyðilagt Katalóníu,“ sagði Arrimadas.
En það er þó ekki bara skotið á milli fylkinga. Átökin eru einnig á milli flokka innan sömu fylkingar. Þannig skaut Junqueras á Puigdemont í gær vegna flótta hins síðarnefnda til Belgíu. „Ég er í fangelsi til þess að taka afleiðingum gjörða minna. Ég flý þær ekki.“