Milo Djukanovic, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Svartfjallalands, hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum þar í landi sem fóru fram í dag. Samkvæmt frétt Sky-fréttastofunnar er búist við því að hann hljóti 53,8 prósent atkvæða.
Djukanovic, sem er formaður Jafnaðarmannaflokksins í Svartfjallalandi, hefur verið leiðandi afl í svartfellskum stjórnmálum um nokkuð skeið. Hann gegndi embætti forsætisráðherra landsins frá 1991-1998, embætti forseta frá 1998-2002, og svo settist hann aftur í forsætisráðherrastólinn árin 2003-2006, 2008-2010 og svo frá 2012-2016.
Mladen Bojanic, helsti andstæðingur Djukanovic í nýafstöðnum kosningum, hefur játað sig sigraðan með rétt rúm 34 prósent atkvæða.
Djukanovic er hlynntur inngöngu Svartfjallalands í Evrópusambandið og þá gekk landið í NATO undir forystu hans.
Djukanovic lýsti yfir sigri í Svartfjallalandi
Kristín Ólafsdóttir skrifar
