Guðmundur Andri Thorsson, alþingismaður og rithöfundur, sem nú situr sitt fyrsta þing, sá Guðlaug Þór Þórðarson reyndar fyrir sér sem rappara í ræðupúlti þingsins í nótt – slíkir voru taktarnir. Guðmundur Andri kann að koma orðum að því en umræðurnar stóðu til hálftvö í nótt.
„Í minn hlut komu menntamálaráðherra, umhverfisráðherra, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, sem reyndar var Bjarni Benediktsson í fjarveru Sigríðar Á. Andersen.
Þetta gekk allt nokkuð vel, nema kannski þegar í stað utanríkisráðherra birtist einhvers konar rappari – MC Gulli – sem tók sennu við hvern þann þingmann sem féll ekki á kné og sór honum trúnaðareiða.Eldglæringar þegar hann átti orðastað við Viðreisnarfólk og ég lenti þarna á milli eins og ég hefði villst inn í eitthvert ógurlegt Valhallardrama.“
„Hann var rosalegur. Byrjaði í innleggi sínu að lesa eins hratt og hann gat – sem var mjög hratt en óneitanlega rapparalegt. Var svo mjög agressífur í andsvörum, nema við Ólaf Ísleifsson sem var beinlínis lotningarfullur.“
Guðmundur Andri segir að á undan sér í púltið hafi farið Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
„Þar fór allt upp í loft milli þeirra Gulla – út af Evrópumálum, nema hvað – og svo var það Þorsteinn Víglundsson sem fékk að kenna á MC Gulla eftir að hann hafði jarðað mig og stappað á líkinu,“ segir Guðmundur Andri í samtali við Vísi.
„Þetta var mjög kostulegt. En maður hefur á tilfinningunni að þetta sé allt leikur meira og minna.“
Já, óneitanlega fær maður það oft á tilfinninguna að umræða á þingi sé á leikskólastigi?
„Já, fólk skemmtir sér við þetta. Hefur stundað þennan leik síðan það var 16 ára.“