Reiði Erdogan má rekja til nýrra og umdeildra laga í Ísrael sem gera hebresku að opinberu tungumáli Ísrael og skilgreindi stofnun nýrra byggða gyðinga sem þjóðarhagsmuni. Áður hafði arabíska einnig verið opinbert tungumál Ísrael en nýju lögin breyta því. Um 17,5 prósent íbúa Ísrael, þar sem átta milljónir búa, eru arabar.
Erdogan sagði enn fremur í ræðu í Tyrklandi að lögin myndu leiða svæðið, og heiminn allan, til „blóðs, elds og eymdar“. Hann hét því að standa með íbúum Palestínu og kallaði eftir því að alþjóðasamfélagið stæði gegn Ísrael.
Bejamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, svaraði Erdogan um hæl á Twitter og sagði Erdogan vera að slátra Sýrlendingum og Kúrdum og fangelsa eigin borgara í tugþúsundatali. Hann sagði það vera mikið hrós fyrir umrædd lög að „demókratinn“ Erdogan væri að ráðast á þau.
„Tyrkland, undir stjórn Erdogan, er að verða myrkt einræðisríki en á hinn bóginn er Ísrael að viðhalda jöfnum réttindum allra borgara, fyrir og eftir samþykkt laganna.“
Greinendur sem AFP fréttaveitan ræddi við segja nýju lögin ekkert fjalla um jafnrétti eða lýðræði sem gefi í skyn að gyðingstrúin skipti mestu máli.
Þrátt fyrir miklar deilur Tyrklands og Ísrael á undanförnum árum, sem hófust árið 2010 þegar ísraelskir sérsveitarmenn réðust um borð í tyrkneskt skip sem var notað til að flytja birgðir til Palestínu, er sterkt viðskiptasamband milli ríkjanna.
Ríkin gerðu samkomulag sín á milli árið 2016 um að byggja aftur upp traust en nú er óttast að það samkomulag sé í hættu.
Turkey, under Erdogan's rule, is becoming a dark dictatorship whereas Israel scrupulously maintains equal rights for all its citizens, both before and after introducing this law.
— Benjamin Netanyahu (@netanyahu) July 24, 2018