Erlent

Varnarmálaráðherra Trump vill bæta samskipti við Víetnam

Samúel Karl Ólason skrifar
Mattis í Víetnam í dag.
Mattis í Víetnam í dag. AP/Tran Van Minh
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er nú staddur í Víetnam og er það í annað sinn sem hann ferðast til ríkisins á árinu. Það er til marks um vilja ríkisstjórnar Bandaríkjanna til að bæta samskipti við smærri ríki í austurhluta Asíu til að sporna gegn áhrifum Kína og aðgerðum þeirra í Suður-Kínahafi, þar sem Kínverjar hafa komið fyrir hernaðarmannvirkjum og vopnum.

AP fréttaveitan segir algengt að varnarmálaráðherra Bandaríkjanna heimsæki Víetnam. Hins vegar sé óhefðbundið að fara tvær heimsóknir á einu ári. Upprunalega stóð til að Mattis færi einnig til Peking en hætt var við þann hluta ferðarinnar vegna deilna Bandaríkjanna og Kína.



Ríkisstjórn Trump hefur ávalt ætlað sér að ganga harðar fram gegn Kína og því sem Bandaríkin lýsa sem óvinveittum aðgerðum Kína. Bandaríkin hafa lengi sakað Kína um umfangsmikinn þjófnað á iðnaðar- og hernaðarleyndarmálum í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Starfsmannastjóri Trump í handalögmálum í Kína vegna kjarnorkufótboltans



Í síðasta mánuði hættu Kínverjar við heimsókn bandarísks flotaforingja til Kína og kröfðust þess að Bandaríkin hættu að selja vopn til Taívan. Þar áður hafði Mattis meinað Kínverjum að taka þátt í stórri flotaæfingu í Kyrrahafi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×