Erlent

Mikill mannfjöldi fagnaði 85 ára afmæli Japanskeisara

Andri Eysteinsson skrifar
Akihito og Michiko veifa mannfjöldanum.
Akihito og Michiko veifa mannfjöldanum. EPA/ Kimimisa Mayama
Yfir 80.000 manns söfnuðust saman og fögnuðu 85 ára afmæli Akihito, keisara Japan, í Tókýó í dag. Að sögn japanskra miðla er um að ræða fjölmennasta afmælisfögnuð keisarans á valdatíð hans sem hófst árið 1989.

Keisarinn Akihito birtist á svölum hallarinnar og ávarpaði lýðinn, með honum í för voru keisaraynjan Michiko, krónprinsinn Naruhito og fleiri fjölskyldumeðlimir.

Akihito sagði í ávarpi sínu hugsa til þeirra sem ættu um sárt að binda eftir náttúruhamfarir sem skollið hafa á Japan í ár.Akihito sem er eins og áður sagði orðinn 85 ára hefur ákveðið að láta af störfum keisara í 30. apríl næstkomandi. Þá mun elsti sonur hans, Naruhito, taka við krúnunni. Akihito hefur glímt við heilsufarsvandamál undanfarin ár og hefur hann til að mynda sigrast á krabbameini í ristli og hefur gengist undir hjartaskurðaðgerð.

Keisarinn í Japan hefur engin ítök í stjórnmálum landsins og snýst því starf hans eingöngu að því að mæta á viðburði og halda tölur. Akihito, sem er sonur Hirohito, verður fyrsti Japanskeisarinn síðan árið 1817 til að stíga til hliðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×