Erlent

Konur í Sádí-Arabíu fá SMS um skilnað

Sylvía Hall skrifar
Hingað til hafa margar konur ekki vitað af því ef eiginmenn þeirra fara fram á skilnað.
Hingað til hafa margar konur ekki vitað af því ef eiginmenn þeirra fara fram á skilnað. Vísir/Getty
Ný reglugerð í Sádí-Arabíu mun koma í veg fyrir að konur þar í landi viti ekki af því ef eiginmenn þeirra sækja um skilnað. Í stað þess munu konur fá smáskilaboð sem lætur þær vita að eiginmenn þeirra hafi sótt um skilnað.

Breytingarnar tóku gildi í dag og eru þær sagðar stefna að því að varðveita réttindi kvenna og ýta undir tæknivæðingu þjónustu þar í landi. Skilaboðin munu innihalda útgáfunúmer skilnaðarleyfisins og hvert konurnar megi sækja viðeigandi skjöl.

Þá verður einnig sett á laggirnar vefsíða þar sem konur geta nálgast upplýsingar um hjúskaparstöðu sína og séð frekari upplýsingar. Með breytingunum geta konur enn frekar tryggt rétt sinn til framfærslu og meðlag eftir skilnað en hingað til hafa margar konur ekki vitað af því ef eiginmenn þeirra fara fram á skilnað.

Breytingarnar eru hluti af Vision 2030 stefnunni sem hefur meðal annars leitt til þess að konum var leyft að keyra frá og með árinu 2017.

Þrátt fyrir að framfarir hafi náðst í réttindabaráttu kvenna í Sádí-Arabíu geta konur til dæmis enn ekki sótt um vegabréf, ferðast utanlands, gift sig að eigin frumkvæði, opnað bankareikninga eða farið í ákveðinn fyrirtækjarekstur.


Tengdar fréttir

Tíu konur fengið ökuréttindi

Konur í Sádi-Arabíu fá rétt til að keyra bíl þann 24. júní næstkomandi, en Sádi-Arabía er enn eina land heimsins sem bannar konum að keyra bíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×