Anne-Elisabeth er ein ríkasta kona Noregs og gift milljarðamæringnum Tom Hagen. Ekkert hefur spurst til hennar síðan 31. október en gengið er út frá því að henni hafi verið rænt af heimili sínu.
Lögregla hóf leit við stöðuvatnið Langvannet á miðvikudaginn, en í tilkynningu segir að kafarar hafi fundið hluti sem verði rannsakaðir frekar. Hugsanlegt sé að þeir tengist málinu. Í yfirlýsingu er ekki rætt hverra tegunda hlutirnir sem um ræðir eru.

Höfðu samband
Í liðinni viku greindi lögmaður fjölskyldu Anne-Elisabeth Hagen frá því að menn sem segjast hafa rænt konunni hafi sett sig í samband við fjölskylduna þann 16. janúar. Skilaboðin bárust í gegnum sama stafræna vettvang og ræningjarnir hafa áður notað til að hafa samband.„Skilaboðin voru hvorki sönnun þess efnis að Anne-Elisabeth sé á lífi né að sendandi hafi Anne-Elisabeth í haldi í dag,“ er haft eftir lögmanninum.
Ræningjarnir hafa krafist lausnargjalds, sem jafngildir yfir milljarði íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt, Monero.