Í Þýskalandi (42,6°C), Belgíu (41,8°C) og Lúxemborg (40,7°C) var hitinn í gær sá mesti sem nokkru sinni hefur mælst þar. Sums staðar voru met slegin með sérstaklega miklum mun. Í París var metið slegið með 2,2 gráðu mun samkvæmt tölum frönsku veðurstofunnar. Fyrra metið var 40,4°C en hitinn mældist 42,6°C þar í gær. Munurinn var sums staðar enn meiri, til dæmis í Lille þar sem hann var 2,9 gráður.
Hitametin sem féllu í gær féllu með 2,8-3 gráðu mun. Það er ekki eðlilegt. Hér er náttúran að öskra til baka. /Temp records were smashed by 2,8-3 °C in various European countries yesterday's #Europeheatwave https://t.co/PSriGsSd1l
— Elin Jonasdottir (@elinbjon) July 26, 2019

Þetta er önnur hitabylgjan sem gengur yfir Evrópu á þessu sumri en allsherjarhitamet var slegið á Frakklandi í þeirri fyrri í júní. Það met féll ekki að þessu sinni þar sem bylgjan nú var norðar en sú fyrri. Hitabylgjan í júní átti þátt í að gera mánuðinn hlýjasta júnímánuð á jörðinni frá upphafi beinna mælinga.
Rætt hefur verið um tengsl loftslagsbreytinga við ákafa hitans. Elín Björk segir að ítrekað hafi verið skrifað í loftslagsfræðum um að jaðartilvikum í veðri sem áður áttu sér ef til vill stað á hálfrar aldar fresti verði tíðari með hnattrænni hlýnun af völdum manna. Þannig telji breska veðurstofan að hitabylgja eins og sú sem gekk yfir í fyrra gerist annað hvort ár um öldina miðja.
„Ég held að maður þurfi að vera orðinn ansi blindur á staðreyndir til þess að tengja þessa öfgahitabylgju ekki beint við loftslagsbreytingar,“ segir Elín Björk.
Möguleiki á hitameti í Noregi
Hitabylgjan sem nú gengur yfir Evrópu hefur náð til Benelúxlandanna, Frakklands, Þýskalands og Bretlands. Heita loftið þokast nú norður álfuna, yfir Skandinavíu, og er jafnvel búist við að hitamet verði slegin í Noregi í dag. Hitinn var kominn yfir þrjátíu gráður í fimm fylkjum Noregs fyrir hádegið.
Orsakir hitabylgjunnar eru hæðarsvæði í austri og lægð yfir Atlantshafinu sem hafa dælt heitu eyðimerkurlofti frá Sahara norður á bóginn með sterkri sunnanátt. Elín Björk segir að hlýja loftið sé ekki aðeins grunn hafgola heldur nái það í gegnum öll lög andrúmsloftsins.
Hæðin hindri ennfremur myndun skýja sem hefðu getað dempað hitann. Þannig nær beint sólarljósið að magna enn upp hitann.
„Af því að það er sólríkasti tími ársins, dagurinn hvað lengstur og sól hæst á lofti bætir sólin við því það er ekki skýjað. Hún nær að skína svo mikið og hita upp loftið yfir landi líka,“ segir Elín Björk.